Dagur hinna dauðu er mikilvægur í nágrannafylki okkar Michoacán. Það er reyndar ekki einn dagur heldur tveir. Þann 1. nóvember er barnanna minnst og kallast sá dagur Día de los Inocentes (dagur hinna saklausu) eða Día de los Angelitos (dagur litlu englanna) og annan nóvember er hinna fullorðnu minnst á Día de los Muertos eða Día de los Difuntos (dagur hinna látnu).
Við fórum með skólafélögum okkar, Mayke og David, að Lago de Pátzcuaro og samnefndum bæ en helstu hátíðarhöld landsins tengt degi hinna látnu eru einmitt í Pátzcuaro og eyju í vatninu sem heitir Isla de Janitzio.
Fyrri nóttina gistum við í glæsilegu húsið við Pátzcuaro vatnið. Á mánudeginum 1. nóvember skoðuðum við Pátzcuaro bæinn og fórum svo til Tzintzuntzan þorpsins og skoðuðum píramíta auk þess að heimsækja kirkjugarð þar sem þorpsbúar voru í óða önn að skreyta grafreiti látinna ættingja og vina og gera klárt fyrir hátíðarhöldin. Allt er skreytt með gullfíflum (Cempasúchil) og allt er appelsínugult. Um kvöldið fórum við í Isla de Janitzio, klifruðum upp bratta eyjuna og fengum okkur að borða. Að lokum fórum við heim til foreldra David í Uruapan þar sem við gistum í góðu yfirlæti. Daginn eftir skoðuðum við vatnaþjóðgarð sem er inní miðri Uruapan borg áður en haldið var heim á leið.