Öll þessi hljóð

Eitt af því sem er öðruvísi hér en á Íslandi eru öll þau hljóð sem eru notuð til að vekja athygli á þeirri „þjónustu“ sem í boði er.
Ruslakallarnir eru með kúabjöllur hanganda á sér svo enginn missi af þeim…og trúið mér, það fer ekki á milli mála þegar þeir eru á ferðinni.
Vatnssölumenn hrópa agua, Bonafont og Ciel. Hnífabryningarmaðurinn spilar á flautu, ísbíllinn er með klassíska ísbílabjöllu og kústasölumaðurinn notar gamlan lúður.
Það verður seint sagt um Mexikana að þeir læðist um götur.

Engar fréttir eru góðar fréttir

Þegar ég skrifaði síðasta pistil þá vorum við að leggja í ferð með alþjóðaskrifstofunni í skólanum. Upphaflega planið var að fara til Ciudad de México (Mexikóborgar) og Oaxaca en þar sem mikil rigning hafði verið í Oaxaca og vegir höfðu skemmst þá var ákveðið að fara til Puebla (http://en.wikipedia.org/wiki/Puebla,_Puebla) í staðin.
Fyrst var farið til Puebla þar sem við þvældumst um borgina og skoðuðum kirkjur, söfn, píramída og markaði. Hápunkturinn var svo tvöfalt afmæli, 200 ára sjálfstæðisafmæli og 100 ára byltingarafmæli México sem haldið var uppá með tónlist og flugeldasýningu. Það var mikið húllumhæ í miðbænum og ég er ekki frá því að það hafi verið fleiri lögreglu- og hermenn í bænum en gestir. Þjónustan var líka flott, sjúkrabílar og læknar útum allt og meira að segja tannlæknaþjónusta.
Eftir 2 daga í Puebla fórum við til Ciudad de México, sem er ein fjölmennasta borg í heimi. Þar voru, eins og í Puebla, helstu menningarstaðirnir skoðaðir ásamt mörkuðum.
Þegar ferðinni lauk var haldið aftur á Hospedarte ( farfuglaheimilið) sem hafði verið heimili okkar frá því að við komum til México. Enn á ný tók við leit í blöðunum að íbúð. Eftir nokkuð símtöl var ákveðið að heimsækja tvo staði sem báðir voru í sama hverfinu, Chapalita. Á fyrri staðnum tók á móti okkur heldri kona, señora Maria Gloría sem sýndi okkur tvær íbúðir sem hún var með til leigu. Okkur leist vel á báðar íbúðirnar en ákváðum að skoða aðra íbúð sem við höfðum séð auglýsta. Sú íbúð, eins og svo margar aðrar sem við höfðum skoðað, stóð ekki undir væntingum. Kannski var það flísalagði sófinn sem gerði okkur frekar fráhverf þeirri íbúð 🙂 Niðurstaðan varð sú að leigja íbúð af señora Maria.
Hverfið okkar, Chapalita, er afskaplega rólegt og friðsælt íbúðahverfi. Í innan við 5 mín göngufæri eru 2 stórmarkaðir, Soriana og Walmart. Í 10 mín göngufæri er svo nokkuð stór verslunarmiðstöð sem heitir La Gran Plaza.
Það munaði miklu að komast úr 4 m2 á Hospedarte í 3ja herbergja íbúð. Lífið hér hefur verið ljúft og vonandi verður engin breyting á því þann tíma sem við eigum eftir að vera hér.