Fyrsta vikan

Nú er fyrsta vikan liðin af dvölinni hér í Guadalajara. Það er óhætt að segja að umhverfið hér sé ólíkt því sem við eigum að venjast í Kópaoginum. Við búum á farfuglaheimili nálægt miðbænum á meðan á íbúðarleit stendur. Því miður hefur tekið lengri tíma að finna húsnæði en við vonuðumst til. Við höfum farið að skoða nokkrar íbúðir en gæði þeirra hafa ekki verið uppá marga fiska. Einnig eru strætósamgöngur nokkuð sérstakar hér og því skiptir miklu máli að fá húsnæði nálægt strætóleið.
Á fimmtudag var kynningardagur í skólanum. Það var merkileg upplifun að labba inn á skólalóðina. Fyrir utan er hefðbundið landsvæði með stórum vegum, mikilli umferð og litlum búðum allt í kring og er skólalóðin eins og vin í eyðimörk. Þar eru endalaus græn svæði, gosbrunnar, sundlaug, íþróttavellir, verslanir og matsölustaðir. Það er ekki laust við að ég hafi spurt sjálfan mig af hverju við bjuggum ekki bara á kampus. Trúlega hefði það verið einfaldara en að leita að húsnæði sjálfur en þegar upp verður staðið verður það meiri reynsla að búa meðal innfæddra í hefðbundnu umhverfi. maður má víst ekki gleyma því að eitt markmiða þessarar ferðar er að ná sér í alþjóðlega reynslu.
Það er ekkert nýtt að flugur ásælist mig og það hefur sannast enn og aftur í þessari ferð. Við gleymdum eitt kvöld að setja á okkur moskítóeitur og ég sat uppi með vel á annan tug bita eftir þá nótt. Bitin urðu ansi stór og ljót og kláðinn var mann lifandi að drepa. Ég endaði því hjá lækni og fékk hjá henni alls konar dót, sápu, pillur og duft. Þetta hefur svo verið notað með ágætum árangri. Stóru ljótu rauðu blettirnir eru að minnka og kláðinn er að mestu farinn…en þó ekki alveg.
Í næstu viku ætlum við í ferð með skólanum til México borgar og Oaxaca þar sem m.a. er verið að fagna 200 ára sjálfstæði landans. Vonandi verður skemmtileg ferðasaga úr þeirri ferð í næsta pisli.

Þetta er allt að koma

Það er á morgun! Það styttist í Mexico ferðina og nú er allt að smella saman. Það mátti ekki miklu muna að kallinn yrði lagður inn þegar stressið var sem mest. Þórunn og Pálína skilja ekkert í mér og hafa verið duglegar að segja mér að þetta reddist. Ég er ekki frá því að hafa heyrt það áður, t.d. haustið 2008.

Ég er þó búinn að bóka gistingu fyrstu næturnar…og svo bara reddast þetta. Er þa’ggi?